Um Dropann
Dropinn
Dropinn styrktarfélag barna með sykursýki
Dropinn, styrktarfélag barna með sykursýki hefur starfað síðan 1995. Höfuðmarkmið félagsins er að stuðla að velferð barna og unglinga með sykursýki. Félagar geta þeir orðið sem eiga eða hafa börn og unglinga með sykursýki á framfæri sínu. Einnig er öllum velunnurum barna og unglinga með sykursýki og öðrum þeim sem vilja styrkja og starfa með félaginu velkomið að gerast félagar. Það að skrá sig í Dropann, styrktarfélag barna með sykursýki, bindur félagsmenn á engan hátt, þátttaka í verkefnum félagsins er undir hverjum og einum komið.
Allt starf félagsmanna í þágu Dropans er unnið í sjálfboðavinnu.
Eitt höfuðmarkmiða Dropans er að standa að sumarbúðum fyrir börn og unglinga með sykursýki. Einnig er staðið að ýmsum uppákomum s.s. fræðslukvöldum, fjölskyldukvöldum, keilu, heimsóknum í húsdýragarðinn, tivolí, svo eitthvað sé nefnt. Félagið styrkir unglinga til líkamsræktar.
Með því að ganga í félagið gengur viðkomandi einnig í Diabetes Ísland - Félag fólks með sykursýki. Þau samtök gefa út fræðsluefni og standa að ýmsum verkefnum sem varða alla sykursjúka á landinu.
Dropinn er fjármagnaður með frjálsum framlögum frá almenningi og fyrirtækjum hér á landi. Sér Símstöðin í samstarfi við Dropann um að afla framlaga frá einstaklingum, Einnig má geta þess að stór hluti framlaga frá einstaklingum kemur frá áheitum sem einstaklingar afla með því að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og afla áheita í leiðinni fyrir Dropann
Aðalfundur
Aðalfundur Dropans fer fram í janúar ár hvert.. Reynt er að hafa fundinn fyrir 1.febrúar en allur gangur hefur verið þar á. Aðalfundur félagsins er haldinn á stað þar sem börn og unglingar geta skemmt sér og leikið sér á meðan aðalfundurinn fer fram. Á aðalfundinum eru á dagskrá hefðbundin aðalfundarstörf, kosning nýrrar stjórnar og þess háttar. Einnig hafa verið fengnir ýmsir aðilar til þess að halda fyrirlestra um ýmislegt sem tengist börnum með sykursýki
Smádropar
Innan Dropans höfum við stofnað félagsskap sem nefndur hefur verið Smádropar er það hugsað fyrir yngstu börnin. Var sá félagsskapur settur á laggirnar árið 2015 og var fyrsti hittingur hópsinns var sunnudaginn 25. janúar 2015. Samkomurnar eru hugsaðar til þess að litlu krakkarnir sem ekki eru orðin nógu stór til að fara í sumarbúðir fái tækifæri á að hitta önnur börn með sykursýki. Einnig er þetta vettvangur fyrir foreldra að kynnast og deila reynslu.
Hittingarnir hafa farið fram á ýmsum stöðum og hefur verið reynt að hafa sem mesta fjölbreytni í því vali.
Sumarbúðir
Stærsta verkefni Dropans er að bjóða upp á sumarbúðir annað hvert ár fyrir börn og unglinga með sykursýki. Dropinn hefur starfrækt sumarbúðir fyrir börn félagsmanna að Löngumýri í Skagafirði. Hverju sinni hafa 22 til 30 börn allstaðar að af landinu dvalist að Löngumýri. Sumarbúðirnar eru ætlaðar börnum á aldrinum 8-13 ára og standa yfir í fjóra daga.
Unglingabúðirnar hafa verið haldnar nokkrum sinnum. Fyrst að Úlfljótsvatni, því næst í Danmörku og svo á Akureyri og nágrenni. Nú síðast voru búðirnar starfræktar um borð í skólaskútu við strendur Svíþjóðar. Tilgangurinn með unglingabúðunum er að vinna með unglingunum og veita þeim undirbúning og fræðslu fyrir lífið, taka á málum sem upp koma á unglingsárunum. Unglingabúðirnar eru fyrir 14 ára og eldri. Þátttakendur hafa verið á aldrinum 14 til 18 ára.
[
Við undirbúning og framkvæmd sumarbúða barna og unglinga eru eftirfarandi atriði höfð að leiðarljósi.
-
Að börn og unglingar með sykursýki fái tækifæri til að hittast og deila sameiginlegri reynslu.
-
Að þátttakendur öðlist meira sjálfstæði og öryggi í meðhöndlun síns sjúkdóms.
-
Að styrkja sjálfsmynd sykursjúkra barna og unglinga.
-
Að þátttakendur geri sér grein fyrir mikilvægi þess að lifa heilbrigðu líferni.
-
Að gefa sem flestum sykursjúkum börnum og unglingum tækifæri á þátttöku.
-
Að allir skemmti sér og líði vel í fræðandi sumarbúðum.
Báðar búðirnar eru uppbyggðar þannig að allir hafi gaman og allir skemmti sér saman ásamt því að fá fræðslu. Það eru læknar og hjúkrunarfræðingar frá göngudeild sykursjúkra á Barnaspítala Hringsins sem vinna að búðunum með okkur og starfa í þeim ásamt öðru frábæru starfsfólki. Út frá báðum búðunum hefur myndast vinskapur á milli krakkanna og hafa þau verið í sambandi sín á milli í gegn um síma og jafnvel heimsótt hvort annað þó svo að þau búi í sitt hvoru byggðarlagi.
Allar upplýsingar okkar benda í eina átt, þ.e. að barnabúðirnar og unglingabúðirnar hafi heppnast afar vel. Það að börnin og unglingarnir vilji fara aftur, þýðir að þeim hafi liðið vel. Að foreldrar vilji leyfa börnunum og unglingunum sínum að fara segir okkur að fullt traust sé á milli aðila. Ef okkur líður vel má áætla að við séum móttækileg fyrir þeim góða boðskap sem fræðslan og samveran færir þátttakendum. Áhugi annarra foreldra og sykursjúkra barna og unglinga á búðunum eykst vegna þess hve vel þær hafa tekist.
Það er mikil vinna og kostnaðarsamt að láta búðirnar ganga upp. En með frábæru samstarfi við göngu deildina og þess starfsfólks sem við höfum fengið til okkar, ásamt öllum þeim styrktarfélögum, fyrirtækjum og öðrum aðilum sem hafa styrkt okkur, þá hefur þetta gengið upp. Það er unun að sjá hvernig læknar og hjúkrunarfræðingar taka á móti börnunum okkar og hugsa um þau, eins og þau væru þeirra eigin. Við erum mjög þakklát göngudeildinni, öðru starfsfólki búðanna og öllum þeim sem hafa veitt okkur styrki og aðstoð í gegnum tíðina. Hafi þau öll kærar þakkir fyrir.
Bingó á Uppstigningardegi
Dropinn hefur verið með fjáröflunarbingó ár hvert síðan 2015, á meðan á Covid faraldrinum stóð lagðist þetta fjáröflunarbingó af. Ætlunin er að frá og með árinu 2024 verði þetta bingó haldið á hverju ári og þá á haustin.
Fyrirtæki voru dugleg að gefa vinninga í þennan viðburð og aðstendur barna með sykursýki lögðu hönd á plóg við að afla vinninga. Krakkarnir hafa svo hjálpað til við að standa að bingóinu. Vel hefur tekist til við bingóið, ávallt hefur verið húsfyllir og allir skemmt sér vel. Höfum leitast við að hafa viðburðin fjölskylduvænan, bingóspjöldin og veitingar á temmilegu verði. Þannig getur öll stórfjölskyldan komið saman á góðri skemmtun og styrkt okkar góða starf.
Hér að ofan hafa verið talin upp þau helstu verkefni sem Dropinn hefur með höndum ár hvert. Þessi talning er ekki tæmandi og hefur Dropinn meðal annars staði fyrir reglulegum foreldrahittingi þar sem foreldrar hittast og ræða málin á meðan börnin leika sér.
Stjórn Dropans 2024-2025
Skráning í Dropann
Með skráningu í Dropann styrkir þú starfsemi félagsins.
Almennt félagsgjald er kr.3000 á ári, en kr.1500 fyrir elli- og örorkulífeyrisþega.